Þegar veðrið er eins skringilega gott og það er þessa dagana þá kemur óneitanlega upp í mér mikill ferðahugur. Ég hugsa mikið til sumarsins og þess daga og ferða sem eru framundan.

Eitt sem ég hef þó áhyggjur af eru erlendir ferðamenn sem eru á götunni og á mörgum af þeim stöðum sem gaman væri að mynda.

Þetta sumar er þó öðruvísi þar sem ég þykist vita um helling af myndum sem ég get tekið á máta sem ég hafði ekki hugsað út í áður. Ég verslaði mér dróna snemma 2018 og hef notað hann af og til þegar tækifæri gefst og veður leyfir. En ég hef ekki enn náð að hugsa nógu langt út fyrir rammann til að sjá fyrir mér myndir sem ég hef hingað til ekki fattað að ég gæti tekið.
Mig grunar að það sé vegna þess að maður er ekki vanur því að sjá hlutina frá sjónarhorni drónans. Með meiri notkun á honum og flugi þá hef ég hinsvegar náð að bæta ímyndunaraflið og hugsa vel fyrir utan kassann.

Undir Akrafjalli

Ég er því búinn að krota í bók helling af stöðum sem ég ætla að heimsækja í sumar til að mynda bæði með myndavélinni og drónanum, tilhlökkunin við að fara á þessa staði er svakaleg og ég get varla beðið. Ég hef reyndar oft verið svona, hlakka eins mikið til, en sjaldan náð að gera allt sem ég ætlaði mér vegna anna eða annara hluta.
Þetta sumar verður samt öðruvísi því ég er með plön sem ná lengra en bara yfir þetta sem ég hef talað um hér að ofan, ég er með hugmyndir sem ná að lifa af meira en bara þetta eina sumar þannig að það fer eflaust svo að ég nái að koma þessu loks í gegn að ferðast eins og planið er.

Smá athugasemd

Annars langar mig að skrifa nokkur orð um myndina sem er hér í toppi síðunnar og hinnar hér fyrir neðan. Það að taka þessar myndir tók ekkert frá athygli minni við að keyra, jú ég er að keyra bílinn þegar þær voru teknar, en myndavélin var stillt rétt áður en ég tók myndirnar. Eina sem ég gerði var að setja myndavélina við hliðina á hausnum á mér og smella af nokkrum. Aldrei fór myndavélin í veg fyrir andlit mitt eða sjón og aldrei einbeitti ég mér að öðru en veginum! Það er oft sem maður er á ferðinni, hvort sem er sem ökumaður eða farþegi, og maður notar svokallaða “spray and pray” aðferð við að mynda. Oftast eru þær myndir hrikalegar, en Sony klikkar ekki, ég treysti þeim vélum einstaklega vel og eins og sést þá tókst þetta bara prýðilega.