Þetta er svo sérstakt með minnið á mér, það virkar oftast ágætlega en þó er ég enn að fá inn minningar sem ég hafði ekki áður en ég var greindur með þunglyndið mitt.

Málið er að mitt þunglyndi stafar af serótónin ójafnvægi, serótónin hefur þau áhrif á mann að það eykur ma. vellíðan og aðstoðar við að læra nýja hluti, sækja og setja hluti í minni og svona. Eins og þetta var útskýrt fyrir mér allavega.
Málið er að þegar það eru svona miklar sveiflur á þessu þá reynist stundum erfitt fyrir mig að sækja minningar og því virkar það stundum sem að ég muni hreinlega ekki neitt. Sem er að sjálfsögðu ekki satt, minningarnar eru þarna, boðleið mín að þeim er bara í rugli þar sem það er of mikið eða lítið af serótónin í líkamanum hverju sinni.

Hvað er þá málið?

Jú, málið er það að ég er farinn að fá reglulega upp sterkar minningar af hlutum sem ég hef ekki haft greiðan aðgang að í mörg ár, stundum áratugi.
Nýverið hafa það td. verið minningar úr þessu húsi.

Grettisgata 40

Grettisgata
Grettisgata 40

Þarna eru margar af mínum sterkustu minningar þessa dagana að stofnaðar. Þetta er fyrsta heimilið sem ég í raun man eftir frá bernsku minni, þarna bjó ég þegar ég hóf skólagöngu mína í “núllta” bekk (þetta var þegar bekkirnir 10 voru frá 0-9 en ekki 1-10 eins og nú). Þó ég muni nánast ekkert eftir skólagöngunni sjálfri, þá man ég núna eftir ýmsu við húsið, garðinn og nágrönnum okkar þarna.

Ég man td. að herbergið mitt var þarna á neðri hæðinni, glugginn lengst til hægri. Svo var veggur þar milli þess glugga og næsta. Herbergi systur minnar var svo við hliðina. Efri hæðin skiptist svo í stofu vinstra megin og eldhús hægra megin, aftur sama skipting, tveir gluggar stofa, einn gluggi eldhús.

Reglulega hefur mig dreymt þetta hús en inn í því í draumum mínum er þó alltaf eitthvað annað en raun ber vitni, mig dreymir stundum að þetta sé að innan hálfgerð klifurgrind, þröng göt sem þarf að troða sér í gegnum til að komast inn í rúmbetri herbergi, en hæðirnar í húsinu stemma samt engan veginn við að vera bara þessar tvær litlu hæðir sem húsið er í raun.

Ég man eftir ýmsum hlutum mjög greinilega nýverið af húsinu eins og það var /er í raun og veru, ég man eftir lyktinni og áferðinni af teppinu sem var inn í herberginu mínu, ég man eftir fjölda trappa í stiganum sem fór niður frá eldhúsinu og niður á neðri hæðina, ég man eftir glugganum sem var á leiðinni niður stigann á veggnum sem var undir pallinum sem pabbi byggði fyrir aftan húsið. Og ég er ekki frá því að það sé sami pallur og sést þarna núna á mynd.

Annað sem ég man eftir var að garðurinn leit nú ansi betur út þegar við bjuggum þarna, ég man ekki eftir að hann hafi verið svona “náttúrulegur” ef mætti að orði komast.

Söluturninn á Vitastíg

Vitastígur - Sjoppan
Gamli söluturninn

Ég man líka hvernig ég lék mér í hverfinu, hér á myndinni fyrir ofan var alltaf lítill söluturn þarna þar sem skyggnið er út úr húsinu vinstra megin á myndinni. Þar fór ég til að kaupa nammi og malt. Þá var ekki þetta grindverk sem er þarna hægra megin og þá var reglan sú að ef þú komst með stút af malt flösku sem var enn með áföstum tappanum þá fékkstu heila í staðinn frítt. Þvi það var litið á það sem að flaskan hefði brotnað og innihaldið tapast. Ölgerðin skipti því út frítt við þá sem ráku söluturna og búðir á þeim tíma.
Það sem ég og mínir fáu vinir gerðum var að við spöruðum eða sníktum pening af foreldrum, keyptum malt og nammið, fórum með flöskuna (1L minnir mig á stærð) undir tröppurnar þarna hægra megin, brutum varlega af flöskunni stútinn, drukkum það sem hægt að drekka úr flöskunni og fórum svo með stútinn aftur með áföstum tappanum og fengum okkur nýja flösku.
Þannig gekk þetta fram og aftur þar til kaupmaðurinn vissi klárlega að það væri eitthvað í gangi og fór að skamma okkur. Þá hlupum við bara í burtu og gerðum eitthvað annað.

Gamli kofinn á Vitastíg

Vitastigur - Gamli kofinn
Kofaræfillinn er horfinn núna

Þarna fyrir innan, vinstra megin við skúrinn sem sést á myndinni, var örlítill steyptur skúr/hús þegar ég ólst upp í þessu hverfi. Þar var oft hangið og spjallað. Við klifruðum ofan á þann kofa og upp á annað í kring.
En sú minning sem stendur hæst uppúr frá þessum stað er þegar ég ætlaði að vera voða kúl á því og stal óopnuðum grænum Royal sígarettupakka af mömmu og við vinirnir ákváðum að byrja að reykja.

Það gerðist þarna, þegar við reyktum nokkrar sígarettur hvor og ég fékk alveg upp í kok af mentholinu sem var í þeim sígarettum. Meira að segja enn þann dag í dag fæ ég hreinlega klígju við að lykta af menthol sígarettum.

Hvað nú?

Það er gaman að fá upp minningar reglulega núna, mér finnst ég vera að græða eitthvað nýtt aftur og aftur. Það er magnað hvað við tökum þessu sem sjálfsögðum hlut að muna vel og geta sótt upplýsingar í kollinn á okkur þegar við viljum.
Ég væri alveg til í að eiga enn betri leið til að sækja mér minningar, því það er margt sem mig langar að muna.

En, það er þó alltaf morgundagurinn og vonin ekki satt?