Það er alveg merkilega skemmtilegt að vera ljósmyndari, allavega ef þú ert ég eða hefur svipaðan áhuga og ég á ljósmyndun. Í þessari færslu ætla ég að fara aðeins yfir mína sögu sem ljósmyndari, frá fyrstu upplifun til dagsins í dag.

Byrjunin..

Já, alltaf best að byrja á byrjuninni, ekki satt?
Ég man þegar ég fékk mína fyrstu myndavél, ódýr og gömul 35mm filmuvél sem var með fastri linsu. Þú kannast alveg við útlitið, lítur út svipað og einnota myndavélarnar, tók 2x AAA batterý minnir mig fyrir flashið og bara virkaði.
En það var þegar ég var ekki komin á fermingaraldurinn ennþá, ég hafði ekki voða mikið vit á myndavélum né ljósmyndun almennt, en mér tókst nú samt að nota þessa vél ágætlega, þó hún hafi svo endað sem dót í dótakassa barnanna þegar ég var orðinn faðir.

Eina við hana sem var verulega slæmt var það hvað hún lak ljósi og átti til að taka myndir yfir mót rammana á filmunni. Þannig að slatti af myndum urðu ónýtar.

Dæmi um ljóslekann.

Hér að ofan má sjá td. eina mynd sem ég tók í fyrst partýi sem ég hef haldið, þar sést klárlega ljóslekinn vinstra megin á myndinni. Ásamt því að sýna hvað gestum mínum leiddist hrikalega.
Þess má geta að daman þarna hægra megin á myndinni er sú stelpa sem ég var einna mest hrifinn af um áraskeið. Stalker genið snemma komið í gang hjá mér greinilega.

Fyrsta alvöru vélin

Næstu vél fékk ég lánaða frá bróður hans pabba, það var alvöru Canon SLR filmuvél sem var með útskiptanlegum linsum, minnir að á vélinni hafi verið verið með 28-85mm f/4 linsu. Hún gat allavega zoom’að og það var alveg nýtt fyrir mér. Gamla mín var bara með fastri linsu og því hafði ég þurft að “zoom’a með fótunum” eins og þeir kalla það.

Á þessum tíma var ég í 9. og 10. bekk í Gaggó Mos og eyddi miklum tíma á bókasafninu þar, sem ég reyndar gerði í Breiðholtsskóla líka áður en ég flutti í Mosfellsbæ. Þar inni fann ég gersemi af bók, sem ég verslaði mér svo seinna meir sjálfur þegar ég varð eldri. Það er stóra Ljósmyndabókin. Hana las ég spjaldana á milli ítrekað, aftur og aftur. Allt sem í henni stóð tókst mér nánast að prófa. Nema jú að framkalla sjálfur og að nektarljósmyndun.

Mynd af yours truly
Og systir mín

Frá þessum tíma á ég margar minningar og myndir, sem sýna mér ýmsar hliðar á þessu ferli mínu. Ég á td. þessar myndir hér að ofan af mér og systur minni sem ég reyndi að lýsa með kertaljósi. Uppsetningin var gríðarleg þarna get ég sagt ykkur. Við sátum á gólfinu, með eldhússtól sitt hvoru megin við okkur, rúmteppi yfir stólana þannig að hausinn á okkur stóð út úr. Svo var kertið sett þarna við hliðina. Svo má ekki gleyma þessu look’i.. Horfa í fjarlægðina..

En þetta var bara partur af því að læra.

Svo var það digital

Já, fyrsta digital vélin mín var heil 1 megapixel. Afbragðs græja frá HP sem hét HP Photosmart C200 og leit svona út.

HP Photosmart C200

Hún kom upphaflega út árið 1999, en ég man ekki hvaða ár ég keypti hana. Minnir að það hafi verið 2000 eða 2001 í Elko.
Með henni fór ég að testa enn fleirri hluti og þar fyrst hófst mitt flug í ljósmyndun almennilega, sérstaklega af því að ég hafði brennandi áhuga á tölvum og tækni, en það að vera með digital myndavél allt í einu þýddi að ég fór að nota tölvur enn meira.
Ég á gríðarlega stórt safn af myndum sem teknar voru á þessari vél, en flest var samt ólistrænt og í raun bara tækifæris myndir. En vélin kenndi mér slatta.

Hoppum fram um nokkur ár

Þegar ég verslaði fyrstu DSLR myndavélina mína, það var eftir að ég byrjaði að vinna hjá Nýherja og gat loks fengið mér alvöru vél án þess að fara á hausinn. Canon EOS 1100D varð fyrir valinu þar sem ég var enn ekki alveg 100% á því hvort þetta væri eitthvað sem væri bara áhugamál hjá mér eða eitthvað meira sem ég vildi eltast við að vinna mögulega við.
Fljótlega bættist önnur vél við, í þetta skiptið Canon EOS 600D og fleirri linsur þar sem ég var strax farinn að fá óskir um að mynda brúðkaup og fólk í kring um mig. Fyrsta brúðkaupið var myndað með 600D vélinni og eftir það vissi ég að þarna var ég kominn heim!

Nám

Ég fór að læra listljósmyndun í gegnum Menntaskólann á Tröllaskaga í fjarnámi á listabraut með áherslu á listljósmyndun. Ég ákvað að fara svo enn lengra með því að fara í enn alvarlegra nám á netinu hjá The New York Institute of Photography sem ég er nú að klára hjá.

Færsla yfir í Sony

Ég fór svo að skoða aðrar tegundir myndavéla, td. Sony. Sony voru virkilega að bæta sig og stökkva framúr hinum á þessum tíma. Mér stóð til boða að kaupa Sony NEX3-F sem hafði verið sýningarvél hjá okkur í Nýherja sem ég keypti. Þá sá ég betur hvernig myndavélar ættu að vera, allavega í mínum haus. Ég sá þarna hvernig var búið að forrita hugbúnað í myndavélina sem nánast vissi hvað ég var að hugsa og aðstoðaði mig betur við að koma því á framfæri sem ég vildi sýna. Myndirnar mínar urðu margfalt betri fyrir vikið.

Þá kom að því að ég ákvað að selja allt Canon dótið sem ég hafði komið mér upp og keypti mér Sony a6000, sem var það nýjasta og besta. Crop sensor (ekki full frame) en by god hvað hún virkaði vel.
Dæmi um myndir eru þessar tvær hér að neðan, önnur af stúdenta útskrift og hin af hringum og brúðarvendinum í brúðkaupi.

Fljótlega bættist önnur Sony a6000 við í safnið og fleirri linsur. Svo þegar getan og færnin jókst þá færði ég mig upp í fullframe myndavél. Fyrst var fyrir valinu Sony a7ii og svo seinna meir Sony a7Riii. Þær vélar nota ég enn í dag fyrir öll mín verkefni. Linsusafnið stækkar og dafnar með árunum en ég finn að ég er þar sem ég á heima núna af því sem ég hef prófað af myndavélum.

Eftir stökkið upp í fyrstu fullframe vélina þá aftur stukku gæði mynda frá mér upp um heilan helling. Það er gaman að sjá að maður er kominn lengra í getu og gæðum en eldri búnaður bauð manni upp á.

Mynd af Akranesvita, tekin á Sony a7Riii með 16-35mm linsu

Atvinna

Ég hóf að starfa sem áhugaljósmyndari undir nafninu AKMyndir, þar sem ég og fyrrverandi eiginkona mín vorum einmitt A og K (Axel og Kristín) og við unnum þar saman undir þessu nafni. Fljótt fór þetta að vinda upp á sig og verkefnum fjölgaði mikið.

Eftir að ég skildi við Kristínu fannst mér ekki viðeigandi að vera með þetta nafn lengur og ég ákvað að stofna nýtt nafn til að vinna undir, þá fæddist CREO ljósmyndastofa.
Ég starfa undir því nafni í dag og sinni alhliða ljósmyndun, veislum, brúðkaupum, fermingum og slíku, ásamt því að starfrækja ljósmyndastúdíó hérna upp á Akranesi þar sem fólk getur komið í myndatöku.

En það getur verið erfitt að byrja með nýtt nafn og byrja að nýju í raun og koma sér á framfæri. Eftir að ég opnaði CREO nafnið í fyrra hafa komið inn verkefni, en alltaf má gott verða betra. Þessa dagana erum við í CREO með leik á Facebook til að auglýsa okkur, gjöf að andvirði 210.000 króna, hvorki minna né meira. Um er að ræða fullan dag af ljósmyndun á brúðkaupsdag í ár fyrir heppið par.
Vinsældir leiksins hafa aukið áhuga á okkur og sýnileika, sem ég er mjög þakklátur fyrir. En það er alltaf þetta “hvað ef” sem er í manni, hvað ef ég finndi aðra leið sem kostar ekki mikið til að auglýsa okkur? Hvað ef ég næði til fleirri aðila? Hvað ef, hvað ef..

Þarna er ég í dag, sjálfstæður ljósmyndari sem leyfir sér að kalla sig atvinnuljósmyndara þó ég sé í raun ekki með sveinspróf hér á landi. Enda er Ísland svolítið spes með þetta, hvar sem er í heiminum ertu atvinnuljósmyndari ef þú vinnur við þetta, óháð námi. Hér er þetta lögvernduð iðn og titillinn atvinnuljósmyndari er varinn undir þeim formerkjum.

Framtíðin

Hún er björt, eða það held ég. Ég bæti fleirri og fleirri verkefnum við hjá mér, ég kynnist fleirra og fleirra fólki sem hefur áhuga á mínum vinnubrögðum og líkar við myndirnar mínar.