Almennt, Lífið

Samfélagsmiðlar

Ég hef lengi vel litið á samfélagsmiðla með þeim augum að þeir hjálpi okkur að halda sambandi við fólk sem okkur er annt um. Við fáum að sjá hvað er í gangi og getum tekið meira þátt í persónulegum pörtum lífs fólks meira en áður.
Í dag er ég ekki svo viss lengur og mig langar aðeins að tala um það.

Facebook

Já, þessi stærsta og “mikilvægasta” vefsíða í heimi. Það eru *allir* á Facebook, eða sem næst því.

Ég byrjaði sjálfur sæmilega snemma á Facebook held ég, búinn að vera þar í rúm 11 ár ef ég fer með rétt mál. Þar er ég búinn að eiga allt frá 0 upp í rúmlega 600 vini yfir árin. Sem stendur eru þeir 207 og ég er alveg sáttur við þá tölu. Ég hef nefnilega tekið eftir því og lært í gegnum tíðina að fleirri vinir á Facebook gera þig ekki að betri manneskju. Það verður erfitt að fylgjast með öllum sem þú vingast við þarna og upplýsingar hverfa í djúpan hyl sem veggurinn þinn verður.

Í dag reyni ég að forðast að nota Facebook líka þar sem þetta er gríðarlegur tímaþjófur að mínu mati. Ég sjálfur hef allavega séð meira en þrjár klukkustundir á dag hverfa á þennan vef.

Twitter

Twitter er vefsíða (og seinna meir app) sem ég hélt ég fattaði en varð svo að játa að ég fattaði hreinlega ekki. Í fyrstu byrjaði ég þar og fannst þetta voða sniðugt, maður gat nálgast erlendar stjörnur á auðveldan máta og þessi miðill virtist sameina mörg önnur öpp á einn stað ef svo mætti að orði komast. Þú gast deilt inn auðveldlega á Twitter það sem þú varst að gera á Foursquare, Instagram og öðrum álíka þjónustum. Það voru reglulegir “viðburðir” svo sem TBT (ThrowBack Thursday) ofl. sem var alltaf gaman að taka þátt í og fylgjast með.

Seinna varð athygli Twitters sú að þessi miðill kom fréttum út frá slæmum stöðum, ef var einhver kúgun í gangi þá gat fólkið í landinu komið réttum upplýsingum úr landinu án þess að fara í gegnum ritskoðun yfirvalda. Gott dæmi um þetta er þegar Egyptar lentu í krísu árið 2011. Þá var Twitter leið fólksins að koma myndum, vídeóum og texta úr landinu til að sýna hvað var í raun og veru að gerast.

Svo kom tímabilið sem ég skildi ekki neitt. #bolabragð og fleirri auglýsingar gimmick voru notuð og Twitter varð að slæmum stað fannst mér. Ég tók appið út og lét mig hverfa þaðan í lengri tíma. Mér fannst lítið vera um raunverulegt innihald á samfélagasmiðlinum. Það varð allt svo.. petty. Rifrildi og leiðindi voru allsráðandi virtist vera og ég missti allann áhuga á því að vera á Twitter.

Nýverið hef ég verið að kíkja þar inn aðeins aftur og þetta er orðið meira eins og gamli Twitter sem ég man eftir, þannig að kannski er ekki öll von úti.

Instagram

Já, konungur myndanna. Þar sem einu sinni var allt fullt af myndum af mat. Hver kannast ekki við það? Við notum Instagram til að mynda “mikilvæga” atburði í okkar lífum, eða hvað?

Ég er alveg sekur um það að mynda fallegan rétt af mat sem ég var við það að fara að gæða mér á þegar ég var á jólahlaðborði eða árshátíð. Við erum eflaust öll sek um það. En þarna inni er hinsvegar orðið svo mikið af myndum að allt í dag er nánast eftirherma af öðru sem fyrir er. Þetta er svona eins og með tónlist og bókmenntir. Í grunninn eru þetta allt sömu nóturnar og stafirnir, það er bara spurning um uppröðunina hver útkoman er.

Pylsur á strönd, áfengisdrykkur eða flottur matur í litlum skömmtum á disk, þetta þekkjum við öll.

Ég hef þó reynt að nota þennan samfélagsmiðil öðruvísi sjálfur, held ég. Ég reyni að setja inn hluti sem skipta mig máli, en oft á tíðum er það þó gamla góða öfundin sem lætur mann setja inn færslu þarna. Það virðast allir aðrir eiga betra líf, betri myndavél, betri bíl eða skemmtilegra líf enn maður sjálfur.

Snapchat

Þar finnst mér gaman að vera. Þú ert bara með þína vini, ræður betur við hver sér frá þér efni og hver ekki. Mér hefur líkað vel við Snapchat frá því að það kom út á sínum tíma. Þó að það hafi vissulega haft á sér það óorð að vera bara fyrir “perra” og “framhjáhaldara” ásamt öðrum vel völdum orðum.

Snapchat gerir mér meira kleift að taka þátt í hlutum sem ég er ekki viðstaddur og sjá enn betur persónulegri hluti frá þeim fáu vinum sem ég er með þar.

Samantekt

Ég ræð ekki við þá hugmynd sem kemur ítrekað upp í hausinn á mér, að samfélagsmiðlar séu af hinu illa. Við minnkum raunveruleg samskipti við fólk af því að við höfum ekkert til að tala um lengur þar sem allt sem er nýtt í lífi fólks erum við nú þegar búinn að frétta af eða sjá á samfélagsmiðlum og smella “like’i” þar á. Við förum sjaldnar út að hitta vini en áður, við hringjum sjaldnar og í sumum tilvikum virðist þessi þróun ýta undir vott af félagsfælni í fólki þar sem allar fréttir af öllum sem við þekkjum eru við fingurna á okkur í snjalltækjunum okkar.

Samt hangi ég enn inni á þessum miðlum og ég deili þessari færslu inn á þá. Hvað segir það um mig?

Header mynd fengin af flickr með leyfi höfundar.

By Axel Rafn

Photographer based in Iceland. Travels all over the country in search of faces, landscapes and happiness.