Sumardagurinn fyrsti var í gær og ég ákvað að skella mér og frúnni í smá ævintýraferð á bílnum. Við settum allt myndavéla dótið okkar í bílinn, versluðum okkur smá snarl og héldum á vit ævintýranna.

Ég var með hugmynd í kollinum að fara á Patreksfjörð en í minninu var vegalengdin þangað töluvert minni en í raun. Ég var ekkert að segja Sunnu hvert við værum að fara, bara að við værum að fara í óvissuferð.

Við fórum ekki alla leið á Patreksfjörð en við snerum við á Brjánslæk, hugmyndin vaknaði að sjá hvort við næðum ferjunni Baldri til baka til Stykkishólms eða ekki og þá hvað það kostaði fyrir okkur tvö og bílinn aðra leiðina. Við misstum af ferjunni (munaði 30 mín) en við hefðum líklegast aldrei tekið hana hvort eðer miðað við verðskránna sem hékk í söluskálanum. Fyrir okkur tvö og bílinn kostaði hátt í 15.000.- kr sem er full mikið.
Á endanum keyrðum við bara til baka eftir að hafa snúið þarna á Brjánslæk.

Dagurinn var í heildina yndislegur frá a til ö, við eyddum góðum tíma saman hjúin og töluðum allt og ekkert. Það er ekki oft í daglegu lífi sem manni tekst að finna svona langan tíma sem það eru bara við tvö í algeru næði fyrir öðrum og getum talað saman og bara notið þess að vera saman tvö.

Hér má sjá myndir sem ég tók á leiðinni ásamt einhverjum pælingum og lýsingum.

Á ferðinni
Þjóðvegurinn stutt frá Hafnarfjalli.
Bifröst
Sólin í gegnum skýin við Bifröst.
Virðulegt hús með fánann dreginn að húni. Kirkjugarður þarna hægra megin.

Ég sá í fréttunum að þessi skilti eru að hverfa, þar sem ný lög breyta hámarkshraðanum á þessum svæðum og skiltunum verður fljótlega skipt út, þannig að mér fannst við hæfi að mynda þetta skilti hér.

Eyðibýli
Eiríksstaðir
Eiríksstaðir í Haukadal

Ég hafði hugsað mér að fara inn í húsið á Eiríksstöðum en það virtist ekki vera búið að opna þar enn, þannig að ég lét mér nægja að mynda húsið að utan. Það hefði verið mjög gaman að komast inn í húsið og sjá það í fyrsta skiptið, þar sem ég hef bara verið þarna sem bílstjóri á rútum og verið kyrr í bílnum til að annast þá sem koma að honum meðan hópurinn er í skoðunarferðinni þarna inni.

Gamall kofi
Sunna að mynda með macro linsu
Gamall kofi
Sunna að mynda með macro
“Sunna! Hæ þú!”

Mér finnst alltaf gaman að ná myndum af fólki þegar það veit ekki að ég sé að taka eða við það að fara að taka af því mynd. Sunnu til mikillar mæðu þá er hún ansi oft viðfangsefnið mitt, en alltaf er hún jafn hissa þegar mér tekst að mynda hana.

Vegur

Ég fæ aldrei nóg af þessu landi okkar og hversu svakalega fallegt það getur verið á góðum dögum. Þennan dag vorum við einstaklega heppin með veður, sólin skein heitt og hitastigið var á bilinu 16.5°C til 20°C. Hér erum við ofan á fjalli/heiði og vorum að fara að leggja af stað niður eftir þetta stop hérna, ferðinni var svo heitið á hina hlið fjarðarins.

Sunna var dugleg með macrolinsuna í þessari ferð og hlakkar mig mikið til að hún vinni sínar myndir til að ég geti skoðað þær. Henni fer sífellt fram með ljósmyndun og það er alltaf gaman að kenna henni, sjá hana dafna og kunnáttu hennar aukast.

Ferðin endaði svo með mat á Borgarnesi á Grillhúsinu þar sem við fengum okkur fínan fisk, þó að minn hafi verið ögn þurr, en Sunna var í skýjunum 😉