Ég er nú ekki beint þekktur sem klöguskjóða, allavega ekki svo að ég viti, en ég held það sé kominn tími til að ég tjái mig aðeins um þetta mál.

Málið er að fyrir einhverjum árum síðan kynntumst við fyrir alvöru og ég var jákvæður í byrjun, þetta gæti verið vinskapur sem tækist vel fyrst við værum búin að kynnast. Ég hafði vitað af henni nánast frá bernsku og mér hafði aldrei líkað vel við hana né þær sögur sem af henni gengu. En fyrst það var búið að kynna okkur formlega þá ákvað ég að þetta yrði látið reyna á og vonaðist bara eftir hinu besta.

En viti menn, hún hefur aldrei gert neitt annað en að draga mig niður, sérstaklega ef mér líður vel og það er eitthvað gott í gangi hjá mér. Alveg merkilegt hversu “heppin” hún er með tímasetningar á að hafa samband og minna á sig.

Ég hef reynt ýmislegt í gegnum tíðina til að reyna að bæta samband okkar en mér finnst ég aldrei fá neitt til baka. Svona einhliða sambönd eru ömurleg og með eindæmum leiðinleg til lengdar.

Í þau fáu skipti sem ég hef sloppið við samskipti við hana, þá líður mér gríðarlega vel. Ég nánast sef betur á nóttunni vitandi að ég slapp í gegnum enn einn daginn án þess að fá athugasemd um holdfar, klæðnað, hluti sem mér líður illa útaf og þess háttar. Að fá frið frá henni er hreinasta himnaríki verð ég að segja.

En af hverju losa ég mig ekki bara við hana? Þessa svokölluðu “vinkonu” mína? Jú, því hún heitir Depurð og er systir Þunglyndis.

Frá því að ég var greindur með slæmt þunglyndi og settur á lyf við því þá hefur þunglyndið sjálft ekki látið á sér kræla nema örfáu sinnum, en systir Depurð lítur reglulega í heimsókn.

Þunglyndið hefur hrjáð mig frá blautu barnsbeini, ég bara vissi aldrei hvað þetta var. Svona hélt ég bara að lífið væri.
Oftar en einu sinni hugsaði ég um sjálfsmorð, tvisvar reyndi ég það. Og þetta var fyrir 16 ára aldur.

Ég hef alltaf verið gríðarlega tilfinninganæmur, þó ég sýni það ekki beint utan á mér. Ég varð ástfanginn og skotinn mjög auðveldlega og þegar ég var skotinn niður af þeirri sem ég var hrifinn af kallaði það alltaf á það sem ég veit núna að heitir lægð.
Ég lenti í slæmu einelti þar sem ofbeldi og vanvirðing áttu stóran part í mínu daglega lífi, en þrátt fyrir það setti ég upp grímu og brosti, ég sagði brandara. Ég reyndi að fela það að inn í mér var ég að hruni kominn.

Grímurnar eru sá hlutur sem ég notaði mest í mínu lífi, utan um þær voru smálygar, sem oft urðu að stærri lygum. Fljótlega fékk ég það orð á mig að ég væri harður lygari, alltaf að svíkja, ýkja og ljúga að fólki. Ég gat ekkert að því gert, ég vildi ekki sýna hversu illa farinn ég var að innan útaf þunglyndinu, engu sjálfsáliti og hatri á því sem ég væri.

Mér fannst ég alltaf eiga að vera betri maður en ég var, ég var aldrei nógu góður í einu né neinu. Sama hvað ég tók mér fyrir hendur þá var það aldrei nógu gott. Ég gafst upp oftar en ég byrjaði á nýjum hlutum til að læra. Ég fann alltaf einhverja afsökun á því af hverju ég gæti ekki þetta, af hverju ég kæmist ekki í hitt.
Ég varð sérfræðingur í að finna upp á hlutum af hverju ég gæti ekki hitt annað fólk. Ég fór að fela mig heima og lifa í tölvunni.
Þar, allavega, gat fólk ekki séð mig. Það voru allir með grímur að vissu marki, það var enginn með sitt raunverulega nafn. Allir voru vinir, allir voru happy.

Í dag kljáist ég enn við þessa “vinkonu” mína hana Depurð. Í gær leið mér frábærlega og í dag fæ ég mig varla til að fara fram úr rúminu. Ég nenni ekki að elda og mig langar hreinlega ekkert að horfa á Eurovision sem er í kvöld.

Ég veit það er ekki hollt né gott að leyfa depurðinni að “vinna mig” svona, en það er oft á tíðum einfaldari lausnin því ef ég reyni að gera eitthvað gegn henni þá bítur hún fastar en ég til baka. Oft á tíðum þarf ég bara að bjóða hinn vangann og bíða eftir að hún fari til að ég geti notið lífsins aftur.

Þangað til hún kemur aftur í heimsókn.