Það verður nú að segjast að ég hef ekki verið eins duglegur og ég ætlaði mér hérna á síðunni minni nýverið. En það er þó af góðri ástæðu.

CREO Ljós

Ég ákvað fyrir um tveimur mánuðum að leggja mig allann fram við að koma CREO á kortið og það er heldur betur að virka.

Við vorum með heilsíðu kynningu á okkur í DV sem fór líka á vef þeirra og þú getur skoðað hér. Við fengum gríðarlega aukningu í heimsóknum á vefinn okkar daginn sem kynningin kom út og daginn eftir það, en svo hefur það farið niður aftur eins og var alveg vitað fyrirfram. En þetta kemur orðinu áfram um CREO, sem er ekkert nema jákvætt.

Síðan auglýsti ég eftir öðrum fyrirtækjum hér upp á Akranesi til að koma í samstarf að einhverju leiti með okkur og það bárust strax tveir tölvupóstar og við erum að vinna í að undirbúa þá vinnu.
Mér finnst alltaf voðalega gaman að geta gert gott og láta gott af mér leiða, þannig að þetta er akkúrat í takt við það og það gleður mig mjög að sjá að önnur fyrirtæki hérna upp frá eru til í svona samstarf.

Síðast en ekki síðst í þeim hlutum sem við höfum gert fyrir CREO er að fyrir helgi fylltum við út alla nauðsynlega pappíra með hjálp vinkonu minnar og við sóttum um skráningu á CREO Ljós ehf! Þetta þýðir að við erum enn einu skrefinu nær því að ná markmiðum okkar, eins og Hatari segir, “Þetta er allt samkvæmt áætlun”.

Yndisleg ást

Sóley & Oddur - Brúðkaup
Sóley að syngja til Odds í brúðkaupi þeirra

Í dag fengum við ein yndislegustu brúðhjón sem við höfum myndað, í stúdíóið til okkar þar sem okkur tókst ekki að mynda þau úti við í brúðkaupi þeirra í fyrra. Ég hafði samband við móður brúðarinnar fyrir stuttu og bað hana að koma til þeirra brúðhjóna að ef þau vildu þiggja það, þá stæði þeim til boða að koma til okkar í stúdíóið að kostnaðarlausu. Þau þáðu það með glöðu geði og við áttu með þeim skemmtilega stund í dag og þau komu meira að segja með sömu fötin og þau voru í þegar þau játuðust hvort öðru í brúðkaupinu.

Við höldum upp á og með öllum brúðhjónum sem við myndum, en það er eitthvað við þessi tvö sem gjörsamlega bræðir okkur í hvert skipti sem við hugsum til þeirra eða sjáum myndirnar af þeim.

Þetta var líka í fyrsta og enn sem komið er eina brúðkaupið þar sem ég, Axel Rafn, hef tárast í veislu. Það vill svo skemmtilega til að það átti sér stað akkúrat þegar myndin hér að ofan var tekin. Þetta var ansi blint miðað hjá mér þar sem ég sá ekkert, það var allt komið í móðu þegar á þennan tímapunkt var komið.
Að sjá ást þeirra og hvernig þau horfa (ennþá í dag!) á hvort annað, er hreint afbragð og gefur manni von fyrir framtíðina =)

Komandi vikur

Á næstu vikum verður nóg að gera, verkefnin koma hægt og rólega inn hjá okkur og það stefnir í frábært sumar ljósmyndalega séð. Á morgun verður svo heljarinnar fjör hjá okkur í stúdíóinu þar sem verðandi módel hjá okkur ætlar að koma og við ætlum líklegast að pumpa út heilli “lookbook” með henni! Hún ætlar svo líka að módelast fyrir okkur mjög fljótlega í brúðarkjól sem við fengum gefins fyrir einmitt þá myndatöku. Stefnan er tekin á að fara í dagsferð annað hvort á Snæfellsnes eða Suðurlandið og mynda hana á mjög íslenskum stöðum.

Pjakkurinn minn er svo að koma seint í mánuðinum til að eyða með okkur sumarfríinu og ég hlakka gríðarlega til þess. Sá hann síðast þegar hann fermdist núna í apríl og þó það sé alltaf gaman og gott að spjalla við hann í gegnum tölvuna, þá er ekkert sem jafnast á við að geta tekið utan um hann þegar ég vil.