Þá er haustið komið að nýju með fyrstu lægðina. Í gær var menningarnótt í Reykjavík og ég var bara heima lasinn og var kominn í bælið vel fyrir flugeldasýninguna sem ég hafði hugsað mér að mynda. En svona er þetta, enn eitt sumarið að baki og veturinn kemur fljótlega. Út um gluggann sé ég trén svigna undan rokinu og mislit lauf fljúga í allar áttir. Haustið er sannarlega komið.

Veturinn er alltaf erfiður tími fyrir mig þar sem þunglyndið vill aukast með minnkandi sól og útiveru. En ég er nokkuð vongóður fyrir þennan vetur þar sem ég er búinn að læra enn meira um mig og minn sjúkdóm er mun betur staddur með að vinna með honum en ég hef verið áður.

Ég vil minna fólk á, það sem finnur fyrir þungum hugsunum á þessum tíma ársins, að opna sig meira og ræða um hlutina við þá sem þeim standa næst. Ef þú hefur ekki einhvern til að ræða við er þér velkomið að hafa samband við mig til að ræða. Ég er alltaf til taks fyrir aðra eins og ég. Við erum öll á okkar ferðalagi og mislangt komin í því ferðalagi. Við eigum aldrei að segja nei við aðstoð og aldrei neita öðrum á verri stað en við um aðstoð. Við búum á hjara veraldar þar sem breytingar á sólinni hafa gríðarleg áhrif á okkur og því þurfum við að styðja hvort annað.

Svo má ekki gleyma því að það er hreinlega bara gott fyrir sálina að aðstoða aðra sama hvað það er. Það gefur sjálfum manni að gefa öðrum, sama hvort það er tími, peningur, líkami eða sál.

Verum góð við hvort annað og njótum þess að geta gert hlutina meira kósy þegar það fer að rökkva úti. Kveikjum kerti.