Almennt, Lífið

Breytingar og framför

Ný vinna

Eins og flestir vita þá var mér og fleirum sagt upp fyrr í ár í einni af tveimur hópuppsögnum hjá Origo. Síðan þá hef ég bara verið að vinna í að koma CREO áfram á kortið með ágætis árangri en launin ná samt ekki að keyra heimilið og slíkt þannig að ég á endanum varð að setja minni áherslu á það og skrá mig á atvinnuleysisskrá til að ná að halda hlutunum sæmilega góðum fjárhagslega séð hérna á heimilinu.
En ég staldraði stutt þar við, ég er kominn í nýtt starf að vinna hjá litlu fjölskyldufyrirtæki sem sinnir akstri fatlaðra og aldraðra í Kópavogi ásamt því að selja út fjóra bílstjóra til Strætó til að gera hið sama í Reykjavík og nágreni.

Aksturinn gleður mig

Það hefur alltaf verið ástríða hjá mér að ferðast, keyra og skoða nýja hluti og síðast en ekki síðst, að hitta nýtt fólk.
Ég er því í skýjunum núna með nýja starfið. Ég er semsagt að keyra einn af þeim fjórum bílum sem eru leigðir út til Strætó og ég keyri því útum allt með alls konar farþega.

Þetta starf passar mér svo vel og ég er að njóta þess í botn sjálfur. Eina sem er “erfitt” við það er það að vakna þetta snemma eins og ég þarf, til að komast til Reykjavíkur á réttum tíma í vinnuna. Ég semsagt byrja að vinna kl 7:30 og er því að vakna um 5:30 á morgnanna til að ná að klára allt mitt og vera mættur á réttum tíma, sem skiptir að sjálfsögðu miklu máli þar sem farþegarnir hafa pantað ferðirnar með fyrirvara og þær eru settar á bílana kvöldið áður.

Ég byrja oftast á því að sækja nokkra krakka í Grafarvogi til að koma þeim í skóla og fyrsti hópurinn er sóttur 7:35 á hverjum morgni, þannig að ég mæti alltaf aðeins fyrr til að vera búinn að koma bílnum í gang, hreinsa af honum ef þess þarf snjó og klaka og svo að hita bílinn fyrir farþegana.

Veturinn er að koma

Svo er það þessi klassíska rótering á árstíðunum, veturinn er að koma. Við erum nú búin að vera heppin með það hve lítið hefur snjóað og hve milt veðrið hefur verið hitalega séð. Færðin frá Akranesi og í bæinn er búin að vera fín, fyrir utan þessar tvær lægðir sem hafa verið að ganga yfir núna í þessari viku. En ef þetta er ávísun á hvað við eigum von á að fá þá er þetta allt í góðu á meðan hitinn er svona og ekki hálka á vegunum. But you never know.

Annað sem fylgir vetrinum er samt eitt af mínu uppáhalds. Jólin nálgast! Ég er nú þegar búinn að uppgötva það að útvarpsstöðin Retro er orðin að Jóla Retro núna. Sem þýðir að ég er með þá stöð í gangi í vinnubílnum núna krökkunum til mikillar gleði. Jólalög í gangi allan vinnudaginn =D

By Axel Rafn

Photographer based in Iceland. Travels all over the country in search of faces, landscapes and happiness.