Almennt, Andlega hliðin, Lífið

Það að detta úr takti

Ég veit að margt sem ég fjalla um á þessari síðu minni nýverið hefur verið þunglyndi og vanlíðan, en það er umræðuefni sem mér finnst hafa verið svolítið taboo í gegnum tíðina og þar sem ég er sjálfur með þunglyndi og er að vinna í gegnum það sjálfur þá finnst mér gott að hugsa og ræða um það. Það hjálpar vonandi öðrum líka sem eru að ganga í gegnum svipaða hluti.

Að detta út

Ég hef tekið eftir því núna undanfarin tvö ár að ég á það til að detta í lægð í þunglyndinu þar sem ég er ekki að ná að ná mér upp með eðlilegu móti. Á þeim tímum þá missi ég þróttinn og áhugann á nánast öllu og engu í kring um mig. Hefðbundnu hlutirnir sem ég sinni eðlilega hætti ég að gera eða fylgja eftir.
Margir kannast við þetta með td. að ganga ekki frá eftir sig þegar þú borðar, ef þú borðar á annað borð. En dæmi um aðra hluti getur verið að skipta ekki um í uppþvottavélinni, gleyma / nenna ekki að taka þvott úr þvottavélinni, setja hreinlega engan þvott í vélina og fleirra.
Fyrir utan slíkt þá hætti ég að fylgjast með þeim þáttum sem ég horfi mest á, dett út úr non-linear þáttum eins og Youtube seríum sem ég hef verið að fylgjast með og síðast en ekki síðst, þá eru það yndin mín heitustu, podcasts.

Að missa úr þætti

Það er ekkert mál að missa úr einn tvo þætti, ég næ að binge’a það á no time, en núna í töluðum orðum er ég að klóra mig upp úr djúpri lægð og ég sé núna að ég er svo langt fyrir aftan með svo margt að það hálfa væri nóg.

Dæmi er td. eitt podcast sem ég hlusta á, Bokeh, en það koma vanalega 2-3 þættir í hverri viku hjá honum af þessum frábæra þætti fyrir ljósmyndara. Núna ákvað ég að kíkja aðeins inn í Apple Podcast appið og fletta upp hversu marga þætti ég ætti eftir að hlusta á. Takið eftir að hver þáttur er oftast í kringum 1 klst að lengd. Ég komst að því að ég á eftir að hlusta á 20 þætti. Vissulega gæti ég gripið bara í og hlustað á þá þætti sem heilla mig mest ef ég les yfir innihald hvers þáttar, en það er oft svo mikil speki sem fylgir random þáttum hjá honum að mér þætti ég bara vera að missa af ef ég sleppti einhverju þætti hjá honum!

Hvernig tæklið þið svona lægðir og slíkt þar sem þið missið úr? Það er væntanlega ekki bara ég sem lendi í þessu eða hvað? =)

By Axel Rafn

Photographer based in Iceland. Travels all over the country in search of faces, landscapes and happiness.