Almennt, Greinar

Að vera gísl í eigin húsnæði

Sagan byrjar á því að ég kaupi mér mína fyrstu fasteign hér á Akranesi og skrifa undir pappírana þann 27. desember 2017. Á síðasta degi mars 2018 flytjum við svo inn. Íbúðin sem um ræðir er efri hæð í litlu tvíbýli. Sameiginlegur garður og stæði á lóð sem tilheyrir okkar íbúð. Allt virtist loks vera að ganga upp hjá mér, eða svo hélt ég.

Nágranninn

Nágranninn fyrir neðan er maður fæddur 1965 og er því 14 árum eldri en ég, en hegðun hans og framkoma er þó mikið barnalegri en mín. Oftar en ekki þá erum við á efri hæðinni að lenda í því að þurfa að loka gluggum þar sem það svífur inn þessi endalausa lykt af grasreykingum. Svo slæm var lyktin á tímabili að ég var tekinn á teppið í vinnunni og þar var mér sagt að fíkniefni væru ekki liðin á þessum vinnustað. ÉG lyktaði af hans grasreykingum. Fyrst um sinn hélt ég að þetta yrði kannski bara eitthvað tímabil og var ekkert að pirra mig á þessu, datt í hug að þetta yrði bara einstaka sinnum en ekki nánast hvern dag eins og raun ber vitni.
Í lögregluna hef ég ítrekað hringt og tilkynnt þetta en samt virðist aldrei neitt vera gert nema það að þeir koma, banka upp á og ræða við hann.

Skapið hans er líka eins fjölbreytt og veðrið og tíðin hér á landi, suma daga er hann blíður eins og undirgefinn kettlingur, aðra daga er hann eins og versti sjóari og gengur yfir með offorsi, reiði og öskrum. Ég vil meina það að þegar hann er ekki í glasi eða útúr reyktur þá sé þessi seinni gerð af manninum sú sem er raunverulega hann.

Hann veitist að manni með öskrum, frekju, fýlu og rifrildum reglulega. Ef maður vogar sér að andmæla því sem hann er segja þá er manni hótað öllu illu, maður sagður vera hálfviti, að maður sé ekki að hlusta og ég veit ekki hvað.

Nýjasta ruglið

Nýjasta ævintýrið er það að við frúin eignuðumst bíl í fyrra sem lifði í 6 daga hjá okkur áður en hann drukknaði í á. Við komum honum heim og settum fyrir framan húsið þar sem ég ætlaði alltaf að fara í að sjá hvort ég gæti lagað hann og ef ekki, koma honum þá í eitthvað verð eða gefa hreinlega ef hann yrði sóttur.
Bílinn vorum við ekki að tryggja þar sem hann var bara dauður og fljótt var búið að taka númerin af honum eins og á að gera.
En, tíminn og aðstæður til að fara í að vinna í bílnum komu aldrei, ég hef ekki átt mikinn pening milli handanna og fór því aldrei í að gera við bílinn.
Fljótt var kominn miði á rúðuna að það ætti að fjarlægja bílinn, ég ræddi við starfsmann Vöku sem kom hér til að fjarlægja hann og fékk hann til að koma bílnum frekar inn á stæði hjá mér inn á lóð og greiddi honum fyrir þá þjónustu.
Þess má geta að aldrei frá því að þessi umræddi bíll var kominn hingað fyrir framan húsið þar til dagsins í gær hafði nágranninn sagt stakt orð um þessa bifreið.

En viti menn, strax í gær þegar hann er úti á sama tíma og ég er að koma heim eftir að hafa skutlað Sunnu veitist hann að mér með kjafti og öskrum og heimtar bílinn af lóðinni, þetta sé sameign og hann vilji ekki sjá þennan bíl þarna. Ég reyndi að segja honum að ég réði því sjálfur hvað ég gerði við mitt eigið stæði en þá fer hann að öskra og tuða enn meira um að þetta sé sameiginlegt stæði sem og lóðin öll.

Mér var seld þessi íbúð með þeim orðum að “bílastæðið sem er á lóðinni tilheyrir íbúð 201, sem er efri hæðin“. Og með mínum pappírum fylgdi skjal sem heitir “Eignaskiptayfirlýsing fyrir..” og er það skjal síðan 2007. Þetta skjal er nágranninn einnig með í höndunum og vísar sjálfur í fyrstu línu klausunnar sem ég ætla að skrifa upp, en hann neitar að hlýða á restina af klausunni.

Klausan

5.3 Bílastæði.
Á lóð er eitt bílastæði er stæði þetta sameign allra, unnið skal að því að koma upp öðru bílastæði á lóð og skal kostnaði við gerð stæðisins skiptast að jöfnu á milli eigenda í matshluta.
Samkvæmt skipulagi skulu vera 2 bílastæði á lóðinni.
Skal stefnt að því að ljúka við gerð bílastæðisins fyrir 31.12.2007.
Nýting bílastæða skal vera þannig að eign 0101 í mhl.01 hefur stæðið sem nær er mhl.01 en eign 0201 í mhl.01 hefur stæðið sem fjær er mhl.01.

Nú get ég ekki betur skilið en að þetta stæði sé mitt stæði þar sem það er þetta eina stæði sem um ræðir þarna í byrjun klausunar, en eftir lok 2007 varð það þá að mínu stæði óháð því hvernig fyrri eigendur gengu frá þessu á parti lóðar íbúðarinnar hér að neðan.
Hans megin á lóðinni er bara gras sem hann tyrfði sjálfur haustið áður en við fengum afhent. En hvorugur okkar er einn af þeim eigendum sem áttu hlut að þessari yfirlýsingu upphaflega.

Þetta neitar maðurinn að hlusta á og rífst bara og gjammar um það hvað ég sé mikið fífl og að ég hlusti ekki.

Gaslighting

Svo virðist líka sem að hann sé núna staðfastur í að reyna að fæla okkur í burtu þar sem hann byrjaði á slaginu kl 7. í morgun að æfa sig á rafmagnsgítar með magnara. Svo hátt var spilað að headphone’in mín með noise cancellation virkuðu varla á það þó að ég væri kominn með volume hjá mér upp í 75%. Þannig byrjaðr morguninn hjá okkur með 20 mín gítargauli.

Ótti og hræðsla

Ástandið er því þannig núna að við fyrir langa löngu settum upp öryggismyndavél inn í íbúðinni okkar í von og óvon með það hvort hann reyndi að fara hingað inn. Sunna þorir varla ein út með rusl lengur í ótta með að rekast á hann og hann reyni eitthvað.
Við reynum að láta sem minnst fara fyrir okkur og erum nánast aldrei með tónlist í gangi hjá okkur því það gæti heyrst niður og hann tekið upp á einhverju dramakasti enn eina ferðina.

Ég spyr bara.. er þetta bara í lagi? Maðurinn er endalaust að brjóta lög með að reykja ólöglegt vímuefni, það eru iðulega slagsmál og barsmíðar niðri sem tengist einhverjum deilum milli hans og annara sem hann er í samfloti með í áfengi og/eða vímuefnum.
Ég er með lögguna á speed dial hjá mér þar sem það virðist alltaf eitthvað vera í gangi þarna niðri.
Svo má ekki gleyma því að oftar en ekki þá er tónlist í gangi allar nætur í stofunni hjá honum sem er staðsett beint fyrir neðan svefnherbergið hjá okkur þannig að það glymur bassinn upp og heldur fyrir okkur vöku á nóttunni. Og þegar ég voga mér að minnast á þetta við hann mætir mér bara skítur, fýla og leiðindi.

Hvað get ég gert?

By Axel Rafn

Photographer based in Iceland. Travels all over the country in search of faces, landscapes and happiness.

1 comment

Comments are closed.