Almennt, Andlega hliðin, Lífið

Með allar klær úti

Hvað á maður að gera í atvinnuleysi og heimurinn er í rugli? Ég var með nóg af ljósmyndunarverkefnum út árið þegar sumarið væri komið, enda hefði brúðkaupstíðin byrjað þá, en Covid-19 ákvað annað. Öll verkefnin hurfu og brúðkaup eru afbókuð eða er frestað um ár.

Hvað er þá til taks?

Vefverslanir

Ég ákvað að opna vefverslun, sem ég gerði, sem er með sérprentaðar vörur og þar sem allar hannanir eru eftir mig. Þar í búðinni er ég líka með hulstur fyrir iPhone síma með ljósmyndum eftir mig.

En það kostar að auglýsa það og ég hef því ekki gert mikið enn í því. Ég stofnaði Facebook og Instagram síður og er búinn að reyna að vera duglegur að setja þar inn færslur en þetta er svo helvíti tímafrekt að manni hálfpartinn fallast hendur.

Ég opnaði þó aðra verslun þó að sú fyrri væri ekki að selja neitt enn sem komið er, sú netverslun er með boli (t-shirt) með allskonar skilaboðum og grafík framan á.
Ég er enn að bæta við í safnið þar og þetta stækkar bara og stækkar. En eins og með hina verslunina þá kostar að auglýsa og ég er að vonast til að það fari nú einhver hreyfing að myndast á sölurnar til að ég geti farið að nota pening í að auglýsa báðar verslanirnar.

Fiverr

Ég skráði mig sem seljanda á Fiverr þar sem ég býðst til að vinna RAW eða JPG myndir fyrir fólk, en það er þar eins og á svo mörgum öðrum stöðum að allt of mikið magn af seljendum eru komnir saman á einn stað og því einstaklega erfitt að ná að fanga athygli þeirra fáu sem koma á vefinn til að kaupa. Á þeim næstum mánuði sem ég er búinn að vera skráður á Fiverr sem seljandi þá hef ég ekki enn fengið eina einustu pöntun. En ég á eftir að bæta við fleirri “giggum” eins og þeir kalla það þarna, söluleiðum, þar sem ég gæti mögulega náð einhverju öðru horni á þetta allt hjá þeim.

Atvinnuleit

Ég er líka búinn að vera duglegur að nýta mér atvinnumiðlanir í von um að finna eitthvað sem hentar og ég get notið mín í, appið Alfreð er þar eitthvað sem stendur upp úr flórunni þar sem það er ekki bara notendavænt heldur líka hversu einfalt er að sækja um í gegnum það. Mér finnst ofboðslega leiðinlegt hvernig það er oft á tíðum með vefsíður fyrirtækja þar sem þú ert krafinn um að fylla út form hjá þeim til að gögnin aðlagist þeirra kerfi, þó að þú sért með tilbúið CV sem inniheldur allar þessar upplýsingar. Oftar en ekki þá er maður að eyða meiri tíma í að fylla út þessi form en að leita að störfum á fleirri stöðum. Þvílíkur tímaþjófur.
En með Alfreð er það sára einfalt, þú ert búinn að fylla út form í byrjun þar sem þú skráir allt þitt, upload’ar hjá þeim CV í PDF formi og getur framvegis hengt það við umsókn þegar þú sækir um í gegnum appið.
Vissulega eru störf líka þar sem þarf að fara inn á vef viðkomanid fyrirtækis til að sækja um þar, en þetta flýtir samt fyrir töluvert að hafa möguleika á að sækja um með nokkrum “töppum” (taps) á skjáinn.

Podcast

Svo er það eitt sem ég er búinn að vera að reyna að byggja upp en hefur gengið illa sökum hávaða hér í grennd við okkur. Ég byrjaði með podcastið “The Icelandic Podcast” þar sem ég hef verið að fara yfir hitt og þetta sem tengist Íslandi. En mig langar þó að færa það aðeins í persónulegri áttina líka en ekki vera bara svona auglýsingalegt.

Mér hefur ekki tekist að hafa það eins reglulegt og ég vildi, sökum hávaða í umhverfinu og almenns þunglyndis á ástandinu í heiminum þessa dagana.

Bottom line

En allt þetta er ekki búið að skila neinu inn, nema jú gamaninu að prófa nýja hluti. Smá pirringur líka við að læra á hitt og þetta en á endanum þá gekk allt upp með uppsetningar og slíkt. En það er samt þessi þörf á að hafa eitthvað að gera, hafa eitthvað fyrir stafni og fá helst greitt fyrir.

Ég held áfram að vinna í sjálfum mér, finna hluti til að hafa eitthvað fyrir stafni og reyna að finna innkomu meðan þetta varir, en það gengur eins og það gengur.

By Axel Rafn

Photographer based in Iceland. Travels all over the country in search of faces, landscapes and happiness.