Almennt, Lífið

Lífið heldur áfram

Það er ekki alltaf dans á rósum og maður á aldrei að lifa í einhverjum þykjustuheim þar sem það er allt falið sem fer úrskeiðis. You live and you learn.

Nýr bíll

Það gerðist fyrir rúmri viku síðan að bíllinn okkar var tekinn vegna skulda, svona er bara lífið. Við vissum vel að við vorum eftir á með lánið á honum, enda erfitt með mig atvinnulausan og frúin í endurhæfingu. Lágmarkstekjur merkir að það þarf að velja og hafna hvað verður borgað um hver mánaðarmót og svona endaði þetta með bílinn því miður.

Til að redda okkur fór ég á stúfana og skoðaði helstu bílasölur sem ég mundi eftir sem og bland.is. Það sem kom mér ofboðslega á óvart var það hversu lítið var til af bílum sem voru annað hvort ekki eknir hátt í 300.000km eða voru almennt í fínu standi. Einnig brá mér virkilega við að sjá fjölda óskoðaðra bíla til sölu á bílasölum. Ég neyddist til að hætta að skoða bílasölurnar og fór að skoða bland betur og þar enduðum við með nokkra sem komu til greina. Eftir slatta af skilaboðum fram og til baka enduðum við á bíl sem er .. vissulega ekki eins sparneytinn og Skoda Fabia bíllinn sem við vorum á (þessi bíll verður ALDREI kallaður sparneytinn!) ..

Moby Dick

Við kynnum til sögunnar Moby Dick (Moby for short). Hann er stór, feitur og drekkur eins og róni! Glöggir taka eflaust eftir því að hann er ekki einu sinni hvítur, en við lítum bara framhjá því.

Moby okkar er 2004 módel af Ford Explorer, 6 leðursæti (2+2+2) og alvöru fjórhjóladrifi. Hann er líka með massíva 5.6L 8 cyl vél sem mér er að takast að siða til og fá til að eyða minna en mælirinn sýndi þegar við fengum hann.
Fyrri eigendur voru með meðaltalið 28.9L/100km en mér er búið að takast að koma því niður í 14.5L/100km núna eftir rúma viku og það verður þá bara ennþá minna með tímanum þar sem ég læri betur á hann.

Upphaflega ætluðum við reyndar bara að fara í annan Skoda, en þeir sem voru í boði voru flestir eknir eins og leigubílar og litu ekkert alltof vel út. Næst voru það nokkrir Ford Explorer, flestir v6 en ekki v8 eins og þessi. Komið hefur svo í ljós, eftir viðtal við starfsmann Brimborgar, að v6 er ekkert að eyða minna en þessi og að þetta hefðu í raun verið betri kaup en að kaupa einn af hinum sem við vorum að skoða.

Ferðasumar

Það verður eitthvað flakk á okkur í sumar í þessum bíl, við ætlum að græja svefnpláss inn í honum þar sem hann býður upp á það mikið pláss að það sé hægt að sofa í honum. Þannig getum við farið á sem flesta staði og myndað allt milli himins og jarðar.

Þessi bíll er líka að kenna okkur smá með það hvernig er að vera á stórum, þungum (hann er rétt rúmlega tvö tonn!) og eyðslumiklum bíl. Þar sem stefnan er að fjárfesta í sendibíl og innrétta til ferðalaga. Smjörþefur af komandi tíð, mætti segja. En meira um það fljótlega 😉

By Axel Rafn

Photographer based in Iceland. Travels all over the country in search of faces, landscapes and happiness.