Almennt, Andlega hliðin, Lífið

Að gefast ekki upp

Það getur verið svo erfitt að hreinlega ekki bara gefast upp þegar á móti blæs, tala ekki um í þessum fáránlegu aðstæðum sem við finnum okkur í núna. Covid setur strik í reikninginn svo um munar.

Vetur nálgast

Ég hef oftast miðað við að þegar verslunarmannahelgin er liðin þá sé farið að hausta og dagur styttist óðum. Það þýðir að góðvinkona mín hún Depurð og systkyni hennar, Þunglyndi og Vanmáttur, koma í langa heimsókn til mín yfir veturinn.
Þetta ár átti ekkert að vera svona, ég ætlaði að koma svo mörgu í verk, finna vinnu, þéna pening, ná að keyra vefverslanir í gang og gera gott. Ekkert endilega að verða mold ríkur, en ég ætlaði mér hluti.

Eftir sit ég með tómt veskið, skuldum vafinn og húsið er að fara upp í skuldir. Það er ferlega erfitt að vera vongóður og bjartsýnn þegar ástandið er svona.

Ferðalög

Við ætluðum að berjast við þessa fjölskyldu sem ég minntist á að ofan með því að fara í ferðalög, útilegur og að reyna að byrja á því að innrétta sendibíl til frekari ferðalaga. En í þetta eina skipti sem við náðum að finna tíma og pening til að fara í útilegu þá komu fréttirnar um að samkomubann væri aftur skollið á með harðari reglum en þegar losað var um höftin af því það gekk svo vel hjá okkur að halda þessu niðri.

Við ákváðum því bara að fara strax aftur heim næsta dag, þannig að við fengum fínasta bíltúr út úr þessu til Tálknafjarðar og til baka aftur til Reykjavíkur.

Við erum samt búin að eyða síðustu vikum í að útbúa svefnpall í bílinn hjá okkur þannig að við getum hreinlega stoppað hvar sem er til að sofa. Smíðin er ekkert ýkja flókin eða dýr, en hún mun duga í það sem við sáum fyrir okkur að nota pallinn í.

Eins og sjá má á þessari mynd þá erum við með smá pláss þarna undir, það var hugsað fyrir annars vegar vatnsbrúsann sem er þarna, auk þess að vera með eldunargræjur, pott og pönnu, hnífapör og annað eins í hólfinu vinstra megin.
Við eigum enn eftir að fara í fyrstu ferðina en það styttist í að við skjótumst eitthvað á bílnum.
Það vissulega stingur samt í augun að sjá að tjalddýnurnar tvær overlap’a svona, en það er eitthvað sem við vinnum úr. Ef okkur líkar vel við þetta þá getum við alltaf reddað okkur svampdýnu sem er 120cm og skorið 5cm af þar sem breiddin á pallinum er 115cm. Það var fyrir algera slysni að við (lesist: ég!) vorum að skoða vefsíðuna hjá Ellingsen og sáum að ef verslað var í vefverslun þá var allt að 75% afsláttur af vörum minnir mig. Þannig að við náðum að næla okkur í einnar hellu gas eldavél, nýja svefnpoka (minn gamli er síðan ég var 12-13 ára minnir mig).
Sem þýðir að við erum betur búin að ferðast núna á þessum tímum án þess að þurfa að eiga í miklum samskiptum við annað fólk og þannig ná að fara vel eftir Covid reglum og álíka.

Þannig að nú er bara að bíða og sjá hvort / hvenær maður kemst út úr bænum til að fara í smá ferðalag og prófa nýja “overlander” okkar eins og það er kallað.

By Axel Rafn

Photographer based in Iceland. Travels all over the country in search of faces, landscapes and happiness.