Nörd, Tæki

Ísland er skrítið land

Þetta hljómar kannski ekki eins og titill fyrir tækniblogg um Apple Watch 4, en jú.. Það er raunin.

Smá útskýring

Ég hef lengi pælt í því hvernig stendur á því að úrið mitt, Apple Watch 4, greini reglulega rangar upplýsingar um hversu margar hæðir ég fer upp eða niður um (e. flights of stairs). Ekki samt það mikið að það hafi böggað mig of mikið eða að ég hafi farið að rannsaka það eitthvað sérstaklega.
Nema núna í morgun. Þá sá ég á úrinu að ég átti að hafa labbað upp og niður 3 hæðir í dag, þrátt fyrir að hafa bara staðið upp úr rúminu og komið mér fyrir með fartölvuna á stofuborðinu.

Skynjarar í úrinu

Ég fór því að pæla í því hvernig úrið greinir þetta labb upp og niður hæðir. Það þarf væntanlega einhverja skynjara sem greina hæð og þá small í kollinum á mér og það kviknaði á perunni. Getur verið að það sé loftþrýstingsmælir í úrinu og það sé að reikna þetta þannig? Eftir smá Google leit komst ég að því að jú, það er loftþrýstings hæðarmælir í úrinu (e. barometric altimeter).

Hvað hefur þetta með að gera að Ísland sé skrítið land?

Jú, málið er að við erum lítil eyja út í rassgati og mig grunar að þessi tækni sem er notuð í úrinu til að dæma hve oft þú labbar upp eða niður stiga taki það ekki inn í reikninginn. Málið er að vegna þess að við höfum svo lítinn landmassa þá erum við hlutfallslega líklegri að lenda í óreglu með hæðir og lægðir í veðurkerfinu ef við miðum okkur við lönd með stærri landmassa (sjá grein).

Sem þýðir að bara við það að liggja upp í rúmi, getur úrið dæmt það svo að við séum að fara upp og niður tröppur, þó við séum ekki á hreyfingu, bara útaf því að loftþrýstingurinn er að breytast svo ört í kring um okkur hér á okkar litlu sætu eyju út í rassgati.

Lagfæringar

Jú, það væri hægt að setja inn í hugbúnaðinn frekari reglur með það að bara dæma labb upp og niður um hæðir ef loftþrýstingur breytist á meðan þú ert að ganga. Þannig ætti að vera hægt að einfalda aðeins og minnka líkurnar á því að breytingar í loftinu einar og sér séu að teljast sem labb á milli hæða.

En hey, meðan þetta er svona þá fæ ég auka talningu og mér líður betur með mig í þessum skrítnu aðstæðum sem Covid hefur myndað.

By Axel Rafn

Photographer based in Iceland. Travels all over the country in search of faces, landscapes and happiness.