Almennt, Ljósmyndun, Nörd, Tæki

Vandræði í paradís

Í nótt vöknuðum við harkalega við píp framan úr stofu sem hvorugt okkar kannaðist við. Þetta var skrítið hljóð og virkaði eins og aðvörunarhljóð úr einhverju tæki. Ég stökk fram og setti hausinn yfir tölvuborðið og hlustaði hvaðan það kom. Það kom úr Synology NAS boxinu okkar.. ó ó..

Smá útskýringar

Við erum með NAS (Network Attached Storage) box frá Synology sem gerir okkur kleift að vera með öryggið á oddinum ef svo skyldi orða það. Þetta box virkar í raun eins og server á netinu okkar hérna heima og er með nokkur “drif” sem það deilir á innra netið hjá okkur. Mikilvægast af því er ljósmyndasafnið mitt. Allar myndir sem ég hef tekið frá því að ég fór að taka myndir af einhverju viti, þám. allar ljósmyndir sem ég hef tekið sem atvinnuljósmyndari sem og hversdags myndir sem ég hef tekið af börnunum frá því þau voru ung og til dagsins í dag.

Í þessu boxi eru fjórir 4TB Western Digital RED diskar sem eru hannaðir fyrir NAS box og úr þeim diskum er ég að fá 10.9TB af nothæfu plássi þar sem diskarnir eru settir upp í svokallað SHR kerfi (Synology Hybrid RAID) þar sem það notar þrjá diska fyrir gögn og einn disk fyrir parity reikning. Sem þýðir að það má bila einn diskur í stæðunni og ég get byggt upp á nýjan disk ef þess þarf. En bili fleirri en einn diskur er allt gagnasafnið tapað.

Diskur bilaður?

Fyrsta sem tók á móti mér þegar ég innskráði mig á boxið í gegnum vafra á tölvunni var að diskur eitt væri með eitthvað vesen, ég slökkti á pípinu og fór að skoða hvað væri að gerast. Skv þeim upplýsingum sem ég var að sjá var diskur eitt annað hvort bilaður eða samband við hann eitthvað skrítið þar sem að fyrst birtast mér skilaboð um að “System Partition Failed” svo eftir að ég endurræsi boxið þá kemur diskur eitt ekki einu sinni upp. Semsagt.. hann virkaði dauður.

Ég ákvað að fara ekki í þetta í svefnmóki og slekk á boxinu, fer upp í rúm og sef restina af nóttinni (illa reyndar en það er annað mál).

Nýr dagur

Nú í morgun fer ég fram í tölvuna og kveiki á boxinu, ætla að sjá hvort það sé eitthvað sem ég geti gert til að laga þetta. Í gegnum vefviðmótið sé ég enn villur um að diskurinn sé hreinlega ekki í kerfinu, hann fari ekki í gang. Þannig að ég ákvað að slökkva á boxinu aftur, opna það og fara yfir diskana í því.

Diskarnir eru allir á plast sleða sem heldur utan um hvern og einn og hjálpar þeim að renna inn í sitt stæði í boxinu, en það er engin smella eða neitt sem heldur diskunum föstum í sínu stæði. Mér fannst diskur eitt vera full auðveldur og laus þegar ég toga hann út úr sínu stæði og set það bakvið eyrað. Eftir að hafa tekið alla diska úr sínum stæðum, ryksogið það litla ryk sem var í boxinu og þurrkað af diskunum með fjöltrefjaklút set ég þá aftur í og prófa að ræsa aftur upp.

Nú greinist diskurinn en ég fæ villu um “System Partition Failed” á disk eitt.

Ok, við erum klárlega að komast áfram sýnist mér. Þannig að ég keyri SMART test á alla diskana og kemst að því að það er ekkert að neinum diskana. Geggjað! Getur þá verið að diskur eitt hafi bara runnið einhverra vegna úr sínu stæði og aftengst þannig?

Eftir nokkur tékk til viðbótar ákvað ég að fara í það að láta Synology boxið bæta þeim disk sem var með vesenið aftur í pool’ið sem deilda drifið er gert úr og er núna að rebuild’a það. Eina sem hræddi mig þegar ég fór í gegnum það ferli voru eftirfarandi skilaboð:

En, ég setti þetta upp sjálfur og hef trú á þeim stillingum sem ég setti upphaflega, kerfið styður það að missa hreinlega einn disk úr kerfinu og þegar það er settur nýr inn í staðinn getur kerfið reiknað upp og sett á þann disk það efni sem var á þeim bilaða.

Núna er Synology kerfið að byggja upp diskinn, gengur hægt en gengur þó. Ég bíð spenntur eftir að þetta klárist.

Mórall þessarar færslu

Jú, það er vissulega það að það borgar sig að hafa hlutina örugga. Ég er ekki bara með mín gögn þarna heldur eru þau afrituð á fleirri en einn stað til viðbótar eftir því hvað það er. Ljósmyndir eru afritaðar í RAW formi í Amazon Photos, Office skjöl og annað slíkt er afritað í OneDrive og svo eru almennar myndir í Google Photos og iCloud líka.

Það borgar sig alltaf að vera með fleirra en eitt afrit af gögnum í dag, ef eitthvað kemur fyrir þá sér maður ekki eftir því. Ég hef lent í því að tapa í denn 750GB af efni á tölvu sem ég var með og það sveið sárt að missa út þær myndir sem þar voru. Ekkert borgað verkefni var á því en þarna voru samt myndir sem hefði verið gaman að eiga áfram.

By Axel Rafn

Photographer based in Iceland. Travels all over the country in search of faces, landscapes and happiness.