Almennt, Lífið

17 ár

Já, í dag eru komin 17 ár síðan ég grenjaði meira á einum sólarhring en ég hafði áður gert yfir heilt ár. Mér var sagt af ljósmóður einu sinni að það væri merki um þroska að gráta þegar maður er viðstaddur fæðingu fyrsta barnsins síns. Þennan dag fyrir 17 árum eignaðist ég barn.

Smá um tilfinningar

Þær eru flóknar og erfiðar oft á tíðum, það er erfitt að sýna þær ef maður er karlmaður. Manni er kennt það að þú átt ekki að gráta, sannir karlmenn sýna engar tilfinningar og láta aldrei tilfinningar stjórna sér. Ég hef hinsvegar alltaf vitað að ég væri ekki þessi týpa sem almennt er talað um þegar það er talað um íslenska karlmennsku. Ég hef alltaf verið væminn, sjálfhlífinn og hálfgerður aumingi þegar það kemur að tilfinningum. Mér sárnar illa, verð vonsvikinn hratt, fyllist af ótta og afbrýðissemi hraðar en ætti að vera og ég hef alla tíð verið með ansi stuttan kveikiþráð í púðurtunninni sem ég kalla reiði.

Þennan dag samt fyrir 17 árum, þá fyrst grét ég. Allt fram að því hafði verið kjökur í samanburði. Þegar dóttir mín kom í fangi á mér og minni fyrrverandi þá opnuðust flóðgáttir sem ég vissi hreinlega ekki að væru til. Seinna sömu nótt / morgun gerðist það aftur þegar ég var að skutlast eftir einhverju á bílnum að ég varð að stoppa út í kanti meðan ég róaði mig niður og þurrkaði úr augunum tárin.

Þetta voru fyrstu gleðitárin sem ég hafði upplifað, í fyrsta skiptið var ég virkilega hamingjusamur. Ég myndi svo upplifa það sama aftur tæpum tveimur árum seinna þegar strákurinn minn fæddist. Sömu flóðgáttir og tilfinningaflóð hrundi yfir mig þá.

En nú koma þung ský

Jú, dóttir mín og sonur búa með móður sinni úti í Noregi, ég er í góðum samskiptum við son minn en dóttur mína hef ég ekki séð síðan hún fermdist. Á undan því var það þegar ég kom út til þeirra fyrstu jólin til að eyða þeim með þeim.

Hvað veldur því get ég ekki sagt, ég veit bara að ég hef verið sakaður um hitt og þetta sem engan grunn hefur undir sér, móðir þeirra meira að segja kært mig til lögreglu fyrir upplognar sakir. Máli sem var svo bara hent í burtu. Ég hef mér vitanlega aldrei verið neitt nema góður faðir og alltaf gert mitt besta til að tryggja að bæði börnin eigi góða bernsku og hafi nóg á sínum disk.

Í dag er dóttir mín orðin 17 ára og undir venjulegum kringumstæðum hefði ég farið með henni fyrir miðnætti síðustu náttar til lögreglu þar sem hún fengi afhent bráðabirgðarskírteini sitt, leyft henni svo að keyra frá miðnætti heim.

Söknuður

Það er svo margt sem ég sakna, svo margt sem ég hef misst af verandi fastur á Íslandi meðan börnin eru í Noregi. Ég er þó heppinn með það að ég hef ítrekað fengið strákinn til mín, yfir sumarfrí, vetrarfrí eða jól og áramót. Þann tíma er ég gríðarlega þakklátur fyrir, en ég hefði þó viljað hafa átt álíka tíma með stelpunni.

Von

Ég lifi þó með von í mínu hjarta að stelpan átti sig á því að flest allt sem við hana hefur verið sagt um mig séu lygar og að hún finni hjá sér löngun að hitta mig aftur, þó að það sé langt í framtíðinni.

Að heyra sögur frá einni hlið en ekki annari er slæmur hlutur, sér í lagi ef þær eru upplognar sem er víst raunin. En ég trúi því og treysti að á endanum sjái hún sannleikann og hafi samband við mig. Það er það eina sem ég get vonað.

En, fyrst þetta er minn vettvangur hér á síðunni minni og ég er óritskoðaður af öðrum, þá er hér afmæliskveðja frá pabba gamla. Bylgja Rós, þó þú berir ekki lengur mitt nafn sem þitt föðurnafn, þá ertu núna og verður alltaf dóttir mín. Ég elska þig meira en þú gerir þér grein fyrir og ég mun alltaf bíða þín, sama hvort eða hvenær það gerist að þú hafir samband. Ég vona að þú eigir yndislegan dag og að þér líði vel yndið mitt. Það er mín eina ósk.

Til hamingju með 17 ára afmælið þitt.

By Axel Rafn

Photographer based in Iceland. Travels all over the country in search of faces, landscapes and happiness.